Á fundi fund efnahags- og viðskiptanefndar í morgun sagði Gylfi Zoega, nefndarmaður í peningastefnunefnd ekki hægt að veðja þjóðarbúinu á að Icelandair fái bætur frá Boeing vegna 737 MAX flugvélanna.

Fréttablaðið bar ummæli Gylfa undir Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, sem segir ógætilegt af nefndarmanni peningastefnunefndar að ýja að því við þingmenn að Icelandair geti lent í slæmri stöðu.

„Þeir sem fjalla um þessi mál, með þessum hætti og á þessum vettvangi bera mikla ábyrgð og verða að vanda málflutning sinn. Fyrst að það var verið að ræða um okkar Icelandair félag á opinberum vettvangi þá hefði verið eðlilegra að ræða við okkur og fara yfir stöðuna áður. Það var ekki gert og ég veit ekki hvaða greiningu viðkomandi gerði áður en hann setti þetta fram með þessum hætti,“ segir Bogi Nils í samtali við Fréttablaðið.

Gylfi Zoega mætti á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis ásamt Ásgeir Jónssyni seðlabankastjóra í morgun. Erfið staða og óvissa í ferðaþjónustu var til umræðu á fundinum og sagði Gylfi að hlutfall laun í heildartekjum fyrirtækja í ferðaþjónustu vera of hátt.

„Þetta á við um flugfélögin. Tvö hafa farið á hausinn nú þegar og það þarf að fylgjast með því þriðja. Þetta á við um veitingastaðina og svo framvegis. Hvenær verður eigið fé þar komið á hættulegt stig. Það má ekki veðja þjóðarbúinu á það að þeir fái bætur frá Boeing. Við vitum ekki hvenær þær koma eða hvað þær verða miklar,“ sagði Gylfi.

Bogi ítrekar í viðtalinu við Fréttablaðið að lausafjár- og eiginfjárstaða Icelandair sé sterk og félagið sé í stakk búið til að bregðast við ýmsum ytri þáttum sem geti komið upp og haft neikvæð áhrif. „Við fylgjum þessari stefnu markvisst og í lok júní vorum við með tæplega 30 milljarða króna í lausafé, að meðtöldum óádregnum lánalínum, og yfir 50 milljarða í eigið fé. Félagið er því vel í stakk búið til að takast á við krefjandi aðstæður.“