Miðvikudaginn 22. maí stendur Uniconta á Íslandi fyrir ráðstefnu á Icelandair Hotel Reykjavík Natura um framtíðarbókhald, en margir sérfræðingar úr geiranum eru á því að sjálfsvirknisvæðing sé staðreynd, og að ekki sé langt í að bókhald færi sig sjálft. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er hönnuður og stofnandi Uniconta bókhaldskerfisins, Erik Damgaard,  en hann hefur yfir 40 ára reynslu úr geiranum og seldi fyrirtæki sitt til Microsoft árið 2001 fyrir 2 milljarða dollara. Erindi Eriks ber yfirskriftina Optimize Your Business en í því kemur hann meðal annars inn á hvaða skref stjórnendur í fyrirtækjum geta tekið til að búa sig undir stafræna framtíð og aukna sjálfvirkni. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Auk Eriks verða með erindi þau Linda Rut Benediktsdóttir og Jónas Magnússon frá Ríkisskattstjóra en þau eru bæði í og hún stýrir íslenska landsteymi Nordic Smart Goverment, sem er samstarfsverkefni fyrirtækjaskráa, skattyfirvalda, hagstofa og fleiri aðila á Norðurlöndunum. Meðal verkefna landsteymisins er að vinna með hagsmunaaðilum að því að móta framtíðina og einfalda rekstrarumhverfið með auknu aðgengi fyrirtækja að viðskiptagögnum í rauntíma, á sjálfvirkan og öruggan máta.

Kristján Ingi Mikaelsson, framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs, verður með síðasta erindi ráðstefnunnar og kastar í því fram spurningunni: Af hverju eru allir að tala um bálkakeðjur? Kristján hefur komið að fjölda verkefna sem snúa að opnun gagna og eflingu lýðræðis í aðdraganda kosninga og eins var hann einn forsvarsmanna ráðstefnanna JSConf Iceland og Community Fund.