HB Grandi hf. hefur selt Ísfiski hf. bolfiskvinnsluhús sitt að Bárugötu 8-10 á Akranesi. Sölvuerð hússins og hluta af vinnslulínu er 340 milljónir króna.

Ísfiskur mun hefja bolfiskvinnslu í húsinu á Akranesi í byrjun næsta árs að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá HB Granda til Kauphallarinnar.

HB Grandi tilkynnti í mars að félagið myndi láta af botnfiskvinnslu á Akranesi. Upphaflega bárust fregnir að því að öllum starfsmönnum á Akranesi yrði sagt upp. Flestum starfsmönnum félagsins var þó tryggð áframhaldandi vinna eftir uppsagnir. Í júlí sendi félagið frá sér tilkynningu, þar sem kom fram að 57 starfsmönnum yrði boðið nýtt starf á öðrum starfsstöðvum, en ekki var hægt að verða við óskum 14 starfsmanna af þeim 92 sem sagt var upp eins og rifjað var upp í Viðskiptablaðinu fyrir skömmu.