Börn og fullbólusettir einstaklingar á Bretlandi og Norður-Írlandi munu ekki lengur þurfa að fara í sóttkví hafi þeir verið í návígi við einhvern sem greinst hefur með kórónuveiruna. Þess í stað er þeim ráðlagt að fara í skimun fyrir veirunni en það er ekki skylt. Sagt er frá á vef BBC .

Samkvæmt hinum nýju tilmælum er fólki ráðlagt að vera með sóttvarnagrímu þurfi það að fara á mannamót og forðast sem kostur er að umgangast aðra, sér í lagi þau sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða bælt ónæmiskerfi. Það er þó ekki skylt.

Tilslakanirnar hafa þegar tekið gildi í Skotlandi og Wales en England og Norður-Írland bætast brátt í hópinn. Með breytingunum er vonast til þess að færri þurfi að fara í sóttkví og minni röskun verði á daglegu lífi fólks.

Þegar mest lét voru tæplega 700 þúsund manns sagt að fara í sóttkví en það var um miðjan júlí. Sú staða varð til þess að mikil röskun varð á starfsemi ýmissa fyrirtækja. Í kjölfarið fengu ákveðnir geirar, þar á meðal þeir sem komu að framleiðslu og flutningi matvæla, undanþágu frá því að fara í sóttkví.

„Bóluefnin eru það sem munu vinna bug á farsóttinni. Samkvæmt áætlunum hafa þau þegar komið í veg fyrir yfir 84 þúsund andlát og 23 milljón smit til viðbótar. Breytingarnar nú eru varfærið skref í átt að venjulegu lífi,“ hefur BBC eftir heilbrigðisráðherranum Sajid Javid.

Reglurnar nú taka til þeirra sem hafa fengið síðari bólusetningarskammtinn minnst fjórtán dögum áður en þeim berst skeyti um að fara í sóttkví. Ákveði fólk að fara í skimun mun það ekki þurfa að vera í einangrun eða sóttkví þar til niðurstöður berast. Sé prófið aftur á móti jákvætt ber fólki skylda til að einangra sig í tíu daga.

Rúmlega 89% Breta hafa fengið fyrri skammt bóluefnis og tæplega 77% hafa fengið báðar sprauturnar.