Verslunin Bónus Skeifunni var oftast með lægsta verðið samkvæmt verðkönnun ASÍ, sem framkvæmd var i stórmörkuðum og lágvöruverslunum höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn mánudag. Bónus var með lægsta verðið í um helmingi tilvika. Samkaup-Úrval í Hafnarfirði var oftast með hæsta verðið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu ASÍ .

Verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru var oftast á bilinu 1% upp í 25%. Algengt var einnig að sjá 25-50% verðmun en mesti verðmunur könnunarinnar var 138%. Minnstur var verðmunurinn á mjólkurvörum, ostum og viðbiti en mestur á ávöxtum og grænmeti.

Í könnuninni var einungis um beinan verðsamanburð að ræða en ekki var lagt mat á gæði vöru eða þjónustu.