Rekstrarniðurstaða borgarsjóðs fyrstu níu mánuði var jákvæð um 200 milljónir króna sem er um 1.660  milljóna króna betri niðurstaða en endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Þetta kemur fram í níu mánaða uppgjöri Reykjavíkurborgar sem lagt var fram í borgarráði í dag.

Hér er átt við svokallaðan A-hluta en rekstrarniðurstaða heildarsamstæðunnar, A og B hluta er hins vegar neikvæð um 12 milljarða króna. Í útskýringum með árshlutareikningi borgarinnar segir að tapið megi rekja til  gengis íslensku krónunnar og erlendra skulda samstæðunnar. Í þessu vegur staða Orkuveitu Reykjavíkur þyngst sem þegar hefur komið fram í árshlutauppgjöri fyrirtækisins.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að góða afkomu megi einkum rekja til hærri skatttekna en gert var ráð fyrir og lægri útgjalda sem skýrist af miklum árangri í rekstraraðhaldi.

„Rekstarniðurstaða borgarsjóðs er umtalsvert betri en gert var ráð fyrir enda hafa stjórnendur og starfsmenn lagt á sig mikla vinnu til að ná þeim árangri,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, í tilkynningunni.

Hvað Orkuveituna og erfiða stöðu hennar segir í tilkynningunni að erfiða stöðu hennar megi rekja til umskipta í efnahagsumhverfinu og stórkostlegra breytinga á gengi íslensku krónunnar.

„Eins og öllum er kunnugt hafa þessar sviptingar verið Orkuveitunni erfiðar og sú staða endurspeglast í árshlutauppgjöri samstæðunnar,“ segir Hanna Birna í tilkynningunni.

„Unnið er með þessa stöðu markvisst og af mikilli ábyrgð á vettvangi borgarstjórnar, meðal annars með áhættumatsáætlun, sem fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, í samstarfi við ytri endurskoðendur og aðra sérfræðinga, vinnur nú að og ætlað er að greina þá áhættu sem borgarsjóði getur stafað af B-hluta fyrirtækjum og skuldsetningu þeirra.“