Borgarráð hefur að tillögu borgarstjóra samþykkt að skipa fimm manna starfshóp til að móta aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi.

Tillagan var samþykkt samhljóða á fundi borgarráðs í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Í málefnasamningi nýs meirihluta er gert ráð fyrir að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi liggi fyrir eigi síðar en 1. október næstkomandi.

„Markmið aðgerðaráætlunarinnar er að móta pólitískar megináherslur í fjárhagsáætlunargerð borgarinnar næstu tvö árin. Áhersla verður lögð á ábyrga fjármálastjórn samhliða traustri grunnþjónustu,“ segir í tilkynningu frá borginni.

„Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum frá meirihluta og minnihluta. Með hópnum starfa borgarhagfræðingur, fjármálastjóri og aðrir embættismenn borgarinnar eftir þörfum.“