Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að fela þriggja manna verkefnisstjórn að móta tillögu að sölu hluts Reykjavíkurborgar í Vélamiðstöð ehf. og Malbikunarstöðinni Höfða hf. og leggja hana fyrir borgarráð fyrir árslok. Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að borgarstjóri segir sölu fyrirtækjanna í takti við þá stefnu borgarinnar að selja þær rekstrareiningar sem betur eigi heima á almennum markaði.

Inni á vef Samtaka atvinnulífsins kemur fram að Samtök atvinnulífsins hljóti að fagna þessari niðurstöðu borgarráðs, en nýlega sendu samtökin borgarstjóra bréf þar sem hugmyndum í þessa veru er fagnað. Í bréfi SA er lögð áhersla á mikilvægi þess að traust ríki á almennum útboðs-markaði en því markmiði verður ekki náð ef opinber fyrirtæki eða deildir innan þeirra bjóða í verk samhliða einkareknum fyrirtækjum. SA beina því jafnframt til borgarinnar að deildir innan Orkuveitu Reykjavíkur taki ekki þátt á almennum útboðsmarkaði, en þrátt fyrir að fullyrt sé að þær hafi sjálfstæðan fjárhag þá rýrir þátttaka þeirra það traust sem ríkja verður og leiðir til tortryggni um að keppt sé á jafnræðisgrundvelli.

SA telja mjög mikilvægt að Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög hugi að því hvernig ná megi aukinni hagkvæmni og sparnaði í rekstri með útboðum og einkaframkvæmd á fleiri sviðum, svo sem söfnun og móttöku heimilisúrgangs, rekstri bílastæða og bílastæðahúsa, almenningssamgangna o.fl.

Aðkoma Vélamiðstöðvarinnar að útboði Sorpu

SA beina því hins vegar jafnframt til borgarstjóra að hann beiti sér fyrir endurskoðun á aðkomu Vélamiðstöðvarinnar ehf. að nýlegu útboði á vegum Sorpu bs. þannig að fyrirtæki á vegum borgarinnar valdi ekki stórfelldri röskun á þeim markaði sem í hlut á þar til fyrirhugaðar breytingar hafa orðið á eignarhaldi fyrirtækisins.