Bráðabirgðastjórn VBS fjárfestingarbanka hefur ákveðið að leita til héraðsdóms Reykjavíkur með beiðni um að bankinn verði tekinn til slitameðferðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir helgi að ákvörðun um framtíð VBS yrði tekin á fundi bráðabirgðastjórnar bankans eftir páskahelgina.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kom til greina að starfsemi bankans verði hætt og að hann verði settur í slitameðferð.

Öllum starfsmönnum VBS, 33 talsins, var sagt upp störfum í síðustu viku. Uppsagnirnar tóki þegar gildi en starfsmönnunum verður gert að vinna út uppsagnarfrest sinn ef þess reynist þörf.

Fjármálaeftirlitið (FME) varð í byrjun mars við beiðni VBS um að skipa bankanum bráðabirgðastjórn í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Það gerðist í kjölfar þess að VBS gat ekki staðið við 3,5 milljarða króna vaxtagreiðslu af 26,4 milljarða króna láni sem íslenska ríkið hafði veitt bankanum og var á gjalddaga 27. desember 2009.