Hlutabréf Apple féllu meira en 6% í verði í gær sem er stærsta fall bréfanna innan dags í fjögur ár. Með þessu lækkaði markaðsverðmæti fyrirtækisins um 35 milljarða Bandaríkjadala á einum degi. 37 milljónir hluta skiptu um hendi en bréfin voru á meðal þeirra sem lækkuðu mest á hlutabréfamörkuðum vestanhafs í gær.

Ekki eru allir sammála um ástæðuna á bak við lækkunina en í frétt Reuters um málið er sagt að spá Data Corp um aukna hlutdeild spjaldtölva með Android stýrikerfinu hafi drifið áfram lækkun bréfanna. Þá segir að sumir greininginaraðilar bendi á að fjárfestar hafi selt bréfin vegna óvissu um ríkisfjármál í Bandaríkjunum. Svo gæti farið að skattar verði hækkaðir á arðgreiðslur og fjármagnstekjur á næsta ári.

Bréf Apple hafa hækkað um 33% það sem af er þessu ári þrátt fyrir fall bréfanna í gær. Bréfin náðu sínu hæsta gildi 21. september þegar þau kostuðu 705,07 dollara á hlut en er nú verðmetin á  538,79 dollara. Það er lækkn upp á um 24% á innan við þremur mánuðum.