Í vikunni gerðist það að ávöxtunarkrafa á verðtryggð bréf Arion banka, CBI34, fór undir kröfuna sem er á HFF34 bréfum Íbúðalánasjóðs sem einnig eru á gjalddaga árið 2034.

Bréf sjóðsins eru með ríkisábyrgð og eru óuppgreiðanleg og ættu því öllu jöfnu að vera álitlegri fjárfestingarkostur en bréf Arion banka og því kemur þessi verðlagning á óvart. Á þriðjudag var markaðskrafaná bréf Arion banka 2,95%, en var 3,07% á HFF34-bréfinu í gær. Reyndar hefur krafan á bréf Íbúðalánasjóðs hækkað töluvert á síðustu mánuðum, en minni hreyfing hefur verið á kröfu Arion-bréfsins. Reyndar segja miðlarar, sem Viðskiptablaðið ræddi við, að ekki sé mikil hreyfing á bréfum Arion banka, enda séu þau ekki á margra höndum.

Því geti ein sala hliðrað verði bréfanna töluvert. Þá vekja þeir athygli á því að kaup- og sölutilboð viðskiptavaka með þessi bréf hafi ekki tekið breytingum í takt við þróun á svipuðum skuldabréfaflokkum, ekki síst HFF34-bréfunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .