*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 28. september 2020 19:18

Bréf Unity nær tvöfaldast frá skráningu

Unity var skráð á markað fyrir tíu dögum. Bréf félagsins hafa hækkað um 90% síðan þá en hlutur Davíðs er virði um 144 milljarða króna.

Alexander Giess
Davíð Helgason stofnaði Unity Software ásamt tveimur öðrum árið 2004.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Hlutabréf Unity Software, félag Davíðs Helgasonar, hækkuðu mest um 10% í dag þar sem hvert bréf var virði 99 Bandaríkjadali. Félagið var skráð í kauphöll New York 18. september síðastliðinn. Útboðsgengið var 52 Bandaríkjadalir og hefur virði hlutabréfanna því hækkað um 90% síðan þá.

Sjá einnig: Unity verðmætara en öll kauphöllin

Áður en félagið var skráð á markað hafði útboðsgengið verið hækkað ítrekað. Upphaflega stóð til að verðbilið yrði 34-42 Bandaríkjadalir sem var síðan hækkað í 44-48 dali og síðan enn fremur í 52 dali. 

Fyrir þremur dögum, þegar bréf félagsins voru virði um 90 Bandaríkjadali, taldi fjárfestingabankinn D.A. Davidson & Co að virði hvers hlutabréfs væri um 100 Bandaríkjadalir.

Hlutur Davíðs verðmætari en öll kauphallar félögin fyrir utan Marel

Í dag fór markaðsvirði félagsins hæst í tæplega 26 milljarða Bandaríkjadali, andvirði um 3.600 milljarða króna. Davíð Helgason, einn af þremur stofnendum félagsins, á um fjögur prósenta hlut í félaginu eða um 10,4 milljónir hluta. Miðað við hæsta gengi bréfanna var hlutur hans virði um 144 milljarða króna.

Hlutur Davíðs er því verðmætari en öll félögin sem skráð eru í kauphöll Íslands fyrir utan Marel. Næst verðmætasta félagið í íslensku kauphöllinni er Arion banki, eftir lokun markaða í dag var bankinn virði um 128 milljarða króna. Markaðsvirði Marel var um 517 milljarðar króna.