Hópur af íslenskum og alþjóðlegum aðilum vinnur að stofnun alþjóðlegs samstarfsvettvangs til að takast á við afleiðingar af bráðnun snjós og íss. Páll Ásgeir Davíðsson er einn stofnandi félagasamtakanna Vox Naturae, sem er aðili að þessu verkefni.

Hann segir að þessi vettvangur muni bera titilinn Ice Circle og meðal þeirra alþjóðlegu aðila sem að honum koma séu Alþjóðabankinn, Háskóli Sameinuðu þjóðanna og stærstu alþjóðasamtökin um vatn, Global Water Partnership. Hann segir jafnframt að verkefnið hafi verið innan Sameinuðu þjóðanna og hafi veigamiklar ráðstefnur á þessu ári kallað eftir stofnun the Ice Circle strax á næsta ári.

Gríðarleg áhrif af bráðnun snjós og íss
Páll Ásgeir bendir á að rýrnun snjós og íss hafi gríðarlega mikil áhrif. Meðal annars á hækkun yfirborðs sjávar, aðgang að vatni fyrir hundruðir milljóna,náttúruhamfarir, vistkerfi, atvinnulíf og menningu fólks. „Nú er þessi mikilvægi hluti heimsins að hverfa á hraða sem mannkynið hefur aldrei staðið frammi fyrir,“ segir Páll Ásgeir.

Páll Ásgeir segir að það sé engin rödd innan alþjóðasamfélagsins sem beiti sér sérstaklega að félagslegu og efnahagslegu hlutverki snjós og íss. „Þú ert með þúsundir og fjölbreyttan hóp aðila sem ræða áskoranir tengdar vatni, en þegar það kemur  að ísnum hefur umræðan lítið náð út fyrir ramma vísindanna. Það vantar vettvang til að koma rannsóknarniðurstöðum á framfæri við ákvörðunaraðila, samstarf á milli fagstétta og  landssvæða með snjó og ís. Páll Ásgeir segir að víðar en á Norðurslóðum sé ísinn að hopa. Í Andeasfjöllunum, Alpafjöllunum, Himalæjafjöllunumog í Austur Afríku jafnvel. Afleiðingarnar séu alls staðar svipaðar og því geta aðilar lært mikið af hvor öðrum. „Það þarf alþjóðlega rödd, vettvang og sjóð til að skapa vitund og samstarf um þessi mál. The Ice Circle mun gegna því hlutverki“ segir Páll Ásgeir.

Margir íslenskir aðilar taka þátt
Á meðal þeirra aðila hér á Íslandi sem taka þátt í verkefninu eru Veðurstofan, Landgræðslan og Háskóli Íslands. Þá tekur Ráðstefnuborgin Reykjavík þátt í verkefninu, enda er búist við miklum ráðstefnuhöldum hér ef Ice Circle verður staðsett á Íslandi.

Verkefnið var kynnt fyrir utanríkismálanefnd Alþingis í síðustu viku. Páll Ásgeir segir að mikill áhugi sé  fyrir því að halda stofnfund Ice Circle á Íslandi og jafnvel að höfuðstöðvar Ice Circle verði hér á landi. Lögð hefur verið formleg beiðni fyrir stjórnvöld um samstarf við stofnráðstefnuna. Páll Ásgeir segir að ekki sé ætlast til þess að íslensk stjórnvöld liðsinni verkefninu með fjármagni. Hins vegar sé mikilvægt vegna samskipta við erlend ríki og stofnanir að utanríkisráðuneytið taki þátt í undirbúningi ráðstefnunnar.