Gengi hlutabréfa í British Energy, umsvifamesta orkuframleiðenda Bretlands, hækkaði um tæp 20% í dag þegar greint var frá því að nú væru í gangi viðræður um að öflugir orkuframleiðendur keyptu hlut í fyrirtækinu.

„Fyrirtækið á í viðræðum við áhugasama aðila um framtíð þess og áform um að vera í fararbroddi á sviði kjarnorkuverkefna,” sagði í tilkynningu frá British Energy. Gætu þær viðræður leitt til „viðskiptalegrar sameiningar eða að tilboð í fyrirtækið verði lagt fram.”

British Energy var stofnað í Skotlandi árið 1995 í þeim tilgangi að starfrækja átta nútímalegustu kjarnorkuver Bretlands. Félagið hefur átt við fjárhagsvandræði að glíma síðan árið 2002 og leitaði þá til eigenda síns, breska ríkisins, um fjárstuðning.

Fyrir tæpum tveimur árum tilkynnti breska ríkisstjórnin að hún íhugaði að selja hluta af eign sinni í félaginu og í maí í fyrra tilkynnti breski iðnaðar- og verslunarráðherrann að selja ætti allt að 450 milljón hluti í British Energy, eða sem svarar til um 28% af félaginu.