JJB Sports íþróttavöruverslunin varar við því að seinni helmingur ársins verði erfiður og segir að sala hafi minnkað á 2. ársfjórðungi. Fyrirtækið er næststærsti íþróttavörusmásali Bretlands og er í 29% eigu Exista.

Á 1. fjórðungi þessa árs minnkuðu tekjur félagsins um 5,3% og á 2. fjórðungi um 1,2% í viðbót. Minni sala er einkum vegna þess að Bretar eyða minna í íþróttavörur eftir því sem kaupmáttur almennings þar í landi minnkar. Auk þess hefur það slæm áhrif á sölu JJB Sports að England komst ekki í úrslit Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu sem haldin voru í síðasta mánuði.

Í frétt Bloomberg segir að forstjóri JJB Sports, Chriss Ronnie, neitar því að eitthvað sé til í sögusögnum um væntanlega yfirtöku félagsins.

JJB hefur að undanförnu unnið að hagræðingaraðgerðum. Meðal annars hefur óhagkvæmum verslunum verið lokað og meiri áhersla lögð á vörur sem verslanakeðjan framleiðir sjálf. Auk verslunarreksturs á JJB Sports heilsuræktarstöðvar, sem hafa ekki fundið fyrir versnandi efnahagsástandi að ráði hingað til.