Breska fjármálaráðuneytið leggur nú lokahönd á lán til íslenskra yfirvalda að andvirði þriggja milljarða punda.

Þetta kemur fram á vef Financial Times í kvöld en þar er greint frá því að lánveitingin miði að því að fjármagnið verði notað til að greiða innistæður viðskiptavini Icesave í Bretlandi.

Eins og fram kom fyrr í dag eru breskir embættismenn væntanlegir til landsins til að ganga frá viðræðum við íslensk stjórnvöld vegna málefna Icesave. Þá er um að ræða fulltrúa breska fjármálaráðuneytisins og Englandsbanka.

Þá kemur fram í umfjöllun Financial Times að samningur ríkjanna á milli kunni að draga úr þeirri spennu sem ríkt hefur eftir að bresk yfirvöld beittu ákvæði hryðjuverkalaga til að frysta íslenskar eignir í Bretlandi.

Þá hefur blaðið eftir Björgvin G. Sigurðssyni að búast megi við niðurstöðu við Breta á morgun, miðvikudag.

Sjá umfjöllun Financial Times.