Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau séu reiðubúin að verja allt að 11 milljörðum Bandaríkjadala í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) í þeim tilgangi að efla sjóðinn.

Þetta kom fram í grein sem Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands skrifaði í breska blaðið The Guardian í gær en greinin er skrifuð í tilefni þess að fjármálaráðherrar 20 stærstu iðnríkja heims (G20) munu hittast í þessum mánuði.

Darling sagði í grein sinni að Bretar myndu halda áfram að vera í forystu þeirra ríkja sem bregðast við alþjóðafjármálakrísunni sem nú ríður yfir heiminn auk þess að vera leiðandi í bata hagkerfanna.

Í apríl s.l. hittur leiðtogar G20 ríkjanna og hétu því að þrefalda sjóðir IMF þannig að sjóðurinn hefði allt að 750 milljarða dali á milli handanna til að bregðast við vandamálum vegna krísunnar. Darling skrifaði í grein sinni að fjármálaráðherrar ríkjanna myndu ná saman um að leggja sitt af mörkum til að ná fram efnahagsbata og laga „hið gallaða“ fjármálakerfi, eins og hann orðar það í grein sinni.

„Í Bretlandi höfum við þegar stigið stór skref í því að komast út úr kreppunni og við munum gera meira,“ segir Darling í grein sinni.

Þá kemur fram í frétt Financial Times að ríki Evrópusambandsins hafi heitið IMF 100 milljörðum dala í verkefnið. Darling segir hins vegar að Evrópuríki þurfi að gera gott betur og heita IMF allt að 175 milljörðum dala.

Þá segir Darling jafnframt að fjármálaráðherrar ríkjanna þurfi að vera sammála um að herja á ofurlaun og risabónusa fjármálafyrirtækja. Þá sé einnig nauðsynlegt að ræða um hin svokölluðu skattaskjól sem mikið hafi verið í umræðunni.