Breski Íhaldsflokkurinn hefur lýst því yfir að hann vilji leggja niður fjármálaeftirlitið breska, FSA. Flokkurinn vill skipta því upp á milli Englandsbanka og nýrrar stofnunar um neytendavernd. Þetta kemur fram í WSJ sem segir að tillögurnar verði kynntar í dag.

Haft er eftir George Osborne, talsmanni flokksins í fjármálum og líklegum fjármálaráðherra í stjórn íhaldsmanna, að mikilvægt sé að færa saman stjórn peningamála og eftirlit með bankakerfinu til að hagkerfið sé ekki byggt á skuldum.

Íhaldsmenn segja að núverandi kerfi, þar sem fjármálaráðuneytið, Englandsbanki og FSA sjá saman um fjármálastöðugleika, hafi ekki dugað til að koma auga á hættuna af skuldasöfnun í bankakerfinu fyrir fjármálakreppuna.