Margir muna eflaust eftir mótmælaöldunni sem reis í þjóðfélaginu þegar Cocoa Puffs breytti uppskriftinni og þar með breyttist bragðið á þessum vinsæla morgunverði þjóðarinnar.

Nú ætlar framleiðandi Special K að taka svipaðan séns en eftir nokkrar vikur verður boðið upp á nýtt og breytt Special K í búðum landsins. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins var ný uppskrift búin til eftir ítarlegar bragðprófanir í Evrópu. Ekki er vitað mikið um breytingarnar en samkvæmt heimildum verður kornið grófara.

Í byrjun ágúst var greint frá því að hagnaður Kellogg´s, sem framleiðir Special K, hefði aukist á síðasta ársfjórðungi, en tekjurnar væru samt minni en búist hafði verið við. Sala á morgunkorni framleiðandans var undir væntingum. Framleiðandinn virðist því vera farinn að snúa vörn í sókn.