Halli á rekstri A- og B-hluta borgarsjóðs Reykjavíkurborgar nam 2,7 milljörðum króna, í samanburði við 4,7 milljarða halla árið 2011. Halli á A-hluta nam 43,7 milljónum króna, en var árið 2011 2,8 milljarðar króna.

Stóri munurinn milli ára þegar A- og B-hlutarnir eru skoðaðir saman er að rekstrarniðurstaðan fyrir fjármagnsgjöld var jákvæð um 17 milljarða í fyrra, en var jákvæð um 11,5 milljarða árið 2011. Fjármagnsgjöld lækkuðu úr 22,7 milljörðum árið 2011 í 21,3 milljarða í fyrra. Tekjur A- og B-hluta borgarinnar jukust úr 108,9 milljörðum í 120,3 milljarða og rekstrargjöld jukust úr 97,4 milljörðum í 103,3 milljarða.

Hjá A-hlutanum jukust rekstrartekjur úr 71 milljörðum í 72,9 milljarða og rekstrargjöld jukust úr 71 milljarði í 72,9 milljarða. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var því jákvæð um 165,4 milljónir í fyrra, en var neikvæð um 2.435,3 milljónir árið 2011. Fjármagnsliðir A-hluta voru neikvæðir um 209,1 milljón í fyrra en voru neikvæðir um 382,8 milljónir árið 2011.

Eignir A- og B-hluta hækkuðu úr 464,7 milljörðum árið 2011 í 470,9 milljarða í fyrra. Skuldir og skuldbindingar hækkuðu ú 318,2 milljörðum í 322,9 milljarða í fyrra og eigð fé hækkaði því úr 146,6 milljörðum í 147,9 milljarða. Lífeyrisskuldbindingar borgarinnar og fyrirtækja hennar hækkuðu úr 12,3 milljörðum í 13,7 milljarða á árinu.