Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands bauð á haustmisseri 2020 í fyrsta sinn upp á starfsþjálfun, en um er að ræða námskeið fyrir nemendur á þriðja ári grunnnáms sem er hugsað sem tenging milli háskólanáms og starfsferils. Í starfsþjálfun fá nemendur að kynnast störfum fyrirtækja/stofnana og glíma við raunverkefni sem tilheyra þeirra kjörsviði í náminu. Eðli málsins samkvæmt er einungis takmarkaður fjöldi nemenda sem kemst að, en umsóknarferlið líkist því þegar sótt er um starf og þurfa nemendur að sækja um með ferilskrá og kynningarbréfi.

Þær Vanesa Hoti og Júlía Sif Liljudóttir urðu hlutskarpastar umsækjenda um stöður hjá FKA - Félagi kvenna í atvinnulífinu. Þær segja verkefnið hafa gengið vel og hafa lært margt sem þær geta nýtt sér á sínum starfsferli í framtíðinni.

„Ég var að sjálfsögðu með væntingar fyrir starfsþjálfuninni en vissi þó ekki alveg við hverju var að búast og ég hafði einhverjar efasemdir um að geta staðið undir væntingum. En ég get sagt að starfsþjálfunin fór fram úr mínum björtustu vonum og hefur þetta verið æðislegur tími sem hefur gefið mér svo ótrúlega mikið" segir Júlía.

Varðandi væntingar til verkefnisins og með hvaða hugmyndir þær fóru af stað í þetta tekur Vanesa undir og segir: „Ég vildi sjá meira raunveruleikann í starfi þegar kemur að fjármálum og bókhaldi og bera það saman við það sem við erum að læra í skólanum. Ég vissi í raun ekki alveg hverju mætti búast við en þetta fór klárlega fram úr væntingum mínum. Ég var búin að vera stressa mig aðeins um að ná ekki að gera helstu verkefnin sem voru í starfslýsingunni eða skilja allt nákvæmlega, en núna höfum við náð að gera allt, höfum bara verið duglegar að spyrja og þetta hefur allt gengið svo ótrúlega vel og okkur er hrósað fyrir vel unnin verk."

Andrea getur ekki beðið eftir að mæla með þeim

Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA, hefur komið að verkefninu fyrir hönd samtakanna og ber stelpunum vel söguna: „Júlía Sif og Vanesa hafa unnið sjálfstætt, eru með vönduð vinnubrögð, fljótar að læra, þær hafa sýnt kjark og þor með að taka málin áfram, fundið leiðir og keyrt hlutina áfram. Það er svo gaman að verja tíma með þeim og ég hef einlægan áhuga á að koma þeim á framfæri. Ég sagði við þær um daginn að ég get ekki beðið eftir að mæla með þeim þegar þær fara að sækja um vinnu," segir Andrea glöð í bragði og bætir við:

„Markmiðið með starfsþjálfuninni er að fá góða þyrlusýn yfir bókhald, straumlínulaga og lista upp ferla innheimtu félagsgjalda svo samskipti FKA við bókhaldsþjónustu eru stóru penslarnir og hefur verkefnið gengið svakalega vel. Til að tækla stærstu áskoranir samtímans verða ólíkar stoðir samfélagsins að tala saman, vera á einhverri vegferð og það er mjög mikilvægt að háskólasamfélagið og atvinnulífið séu í stöðugu samtali. Vanesa og Júlía Sif hafa myndað gott og traust teymi og þær hafa fengið að sækja fundi, ráðstefnur og við höfum reynt okkar allra besta að leyfa þeim að kynnast tengslanetinu hjá FKA. Ég hef markvisst sett þær í samband við fólk í fjármálum og tekið þær með á fundi og leyft þeim að fá innsýn í líf stjórnanda og starf í félagasamtökum. Þær hafa fengið einlægt samtal og styrka stjórn frá okkur og það hefur verið algjörlega geggjað að fylgjast með þeim springa út og eflast."

Glöggt er gests augað

Vanesa og Júlía taka undir þetta og segjast hafa hlotið góða leiðsögn á misserinu. „Já, mjög mikla og góða þjálfun. Við vorum reglulega með rafræna fundi þar sem var farið yfir stöðuna og rætt saman. Við höfum farið á fundi með mörgum FKA konum og lært mikið af þeim öllum. Einnig höfum við fengið gríðarlega mikinn stuðning. Þær hafa alltaf minnt okkur á það að engin spurning er asnaleg og það er eina leiðin til að læra, að spyrja" segir Vanesa. „Andrea [Róbertsdóttir] framkvæmdastjóri, Unnur [Elva Arnardóttir] gjaldkeri og Hulda [Ragnheiður Árnadóttir] formaður hafa tekið okkur fagnandi og leiðbeint okkur virkilega vel í þeirri vinnu sem við höfum verið að sinna með þeim, sem og gefið okkur traust til að til að vinna sjáfstætt" segir Júlía.

Aðspurð hvort nemendurnir hafi náð að kenna stjórnarkonum FKA eitthvað á móti segir Andrea: „Ekki spurning, Júlía Sif og Vanesa eru á þriðja ári í fjármálum og með flottar einkunnir. Þær eru ungar en ólíkar, með flottan bakgrunn og hafa komið inn með góðar hugmyndir og ný sjónarhorn. Þær eru með ólíka reynslu og hafa komið inn með sinn X-Factor sem hefur heillað okkur upp úr skónum. Samstarfið hefur minnt okkur á að samtalið við háskólasamfélagið er mjög mikilvægt, glöggt er gests augað og allt það. Ólíkar kynslóðir verða líka að vera í stöðugu samtali og mentora hvora aðra upp og niður. Geggjuð þessi framtíð!"

Starfsþjálfunin öðruvísi vegna Covid

En markaðist starfsþjálfunin eitthvað af COVID-19 faraldrinum og ef svo er, þá af hversu miklu leyti?

„Starfsþjálfunin hefur verið aðeins öðruvísi en bæði við Vanesa og konurnar hjá FKA höfðum séð fyrir okkur. Við náðum að hitta þær alveg fyrst í haust sem var frábært en þar fyrir utan höfum við eiginlega alveg verið í gegnum netið. Það hefur þó gengið ótrúlega vel og við höfum fundað mikið rafrænt. Allir hafa verið mjög viljugir til að gera starfið einfalt og aðgengilegt svo þetta hefur bara gengið mjög vel. Einnig hafa flestir viðburðir FKA verið rafrænir sem er öðruvísi en gefur þó fleiri konum aðgang að þeim og auðvelt er að mæta á þessa viðburði hvar sem maður er staðsettur sem mér finnst bara frábært," segir Júlía.

Og hvað ætli standi uppúr eftir þetta?

„Klárlega tengslin sem hafa myndast og hvað ég hef lært mikið. Við höfum kynnst mikið af öflugum konum og fengið mikið sjálfstraust. Ráðstefnurnar sem okkur hefur verið boðið á hafa verið svo gagnlegar og góðar. Vináttan sem hefur myndast er mér mjög dýrmæt og einnig öll góðu ráðin sem munu nýtast mér vel í framtíðinni" segir Vanesa.

„Ég vil bara segja í lokin hvað ég mæli mikið með því að námsmenn í viðskiptafræði skoði að skrá sig í starfsþjálfun og hvað ég er ánægð með þetta tækifæri hjá FKA. Einnig vil ég þakka sérstaklega Andreu framkvæmdastjóra, Unni gjaldkera og Huldu formanni fyrir það hvað þær hafa tekið okkur vel, haldið vel utan um okkur á þessu skrítnu tímum og kennt okkur margt á þessum annars stutta tíma. Þær eru alveg einstakar og ég er svo þakklát fyrir það að hafa fengið að kynnast þessum mögnuðu konum" segir Júlía.

Andrea Róbertsdóttir á lokaorðin: „Mig langar að hrósa Ástu Dís Óladóttur dósent í HÍ fyrir öflugt starf og mikinn metnað við að tengja HÍ við atvinnulífið með þessum hætti. Hún er mjög mikilvæg stærð í þessu verkefni og á allt hrós skilið fyrir að koma þessu af stað með krafti. Svo er það gott og náið samstarf stjórnar FKA sem spilar hér inní hvernig tókst til og stuðningur formanns FKA við skapandi nálganir skipta öllu fyrir framkvæmdastjóra í félagasamtökum eins og þessum."