Brusselferð Evrópunefndar ríkisstjórnarinnar markar tímamót í umræðunni, segir Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, í nýrri færslu á heimasíðu sinni. "Forsætisráðherra fól nefndinni að skoða tiltekinn möguleika, upptöku evru án inngöngu, og ferðin til Brussel skilaði einfaldlega skýrri niðurstöðu. Sá möguleiki er ekki í stöðunni."

"Krónan er í svifléttu falli, verðbólgan mun aukast að sama skapi, og kjör almennings versna sem því nemur. Við þessar aðstæður hlýtur hin afgerandi niðurstaða ferðarinnar til Brussel að flýta fyrir þeirri augljósu niðurstöðu sem "blákalt mat" á hagsmunum þjóðarinnar kallar á," segir Össur.

Hann segir sjálfsagt að menn fái tíma til að melta niðurstöðuna eftir ferð Evrópunefndar. "Við þessi kaflaskipti er hins vegar tímabært að taka aftur upp hugmyndir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, og Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að nota tímann meðan umræðan geisar og þroskast, til að búa til stöðu, þar sem menn eiga raunverulegt val. Þau hafa bæði bent á að æskilegt væri að breyta stjórnarskránni þannig að hún yrði ekki þröskuldur í vegi umsóknar – ef niðurstaðan verður að sækja um aðild. Þetta er eitt stærsta verkefnið af mörgum sem bíður í Evrópumálum. Menn hljóta að geta fallist á að hefja þennan undirbúning, enda felur hann í sjálfu sér ekki í sér skuldbindingu um að fallast á aðildarumsókn." "Stefnan verður hvorki tekin á aðild að Evrópusambandinu né upptöku evru nema Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í þeirri för. Þannig er einfaldlega hin pólitíska staða, og án stuðnings hans við slíkan leiðangur tekst ekki að ná þeirri breiðu samstöðu sem er algjör forsenda hvorutveggja."