Forsvarsmenn Sláturfélags Suðurlands (SS) eru vongóðir um að verð á svínakjöti hækki á næstunni, samtímis og dregur úr framboði. „Offramboð er enn á svínakjöti og afkoma svínabænda hörmuleg. Tvö stór svínabú eru í söluferli eftir gjaldþrot,“ segir í fréttabréfi SS.

Fyrirtækið og aðrir stórir kaupendurhafa sjálf ekki fremur en bændur farið varhluta af erfiðum aðstæðum á svínakjötsmarkaði en miklir fjármunir eru bundnir í birgðum. Einnig er bent á að mikið framboð sé af ódýru, fersku og marineruðu svínakjöti sem selt er undir merkjum smásöluverslana. Sú samkeppni skekki sölu annarra kjötvara.