Launaþróun í byggingariðnaði bendir ekki til þess að mikil þensla sé á byggingageiranum, að mati hagfræðideildar Landsbankans. Bent er á það í Hagsjá deildarinnar að byggingarstarfsemi hafi aukist en ekki nóg.

Vísað er til þess að samkvæmt tölum Hagstofunnar hafi bygging íbúðarhúsnæðis aukist nokkuð á síðustu tveimur árum. Sé aðeins horft til þess húsnæðis sem byrjað var að byggja á höfuðborgarsvæðinu sjáist að slíkum verkefnum hafi fjölgað verulega eða sjöfalt.

Í Hagsjánni segir:

„Sú hækkun er reyndar reiknuð frá mjög lágum gildum og fjöldi bygginga sem byrjað var á á árinu 2013 er enn mun minni en var að jafnaði á árunum 1983- 2004. Það er því enn langt í land með að við náum upp í venjulegt árferði, hvað þá að verið sé að svara uppsafnaðri þörf fyrir nýtt húsnæði. Á árinu 2013 var samkvæmt tölum Hagstofunnar lokið við byggingu um 750 íbúða á höfuðborgarsvæðinu, en það er líklega innan við helmingur af áætlaðri þörf. Staðan er svipuð úti á landi. Byggingastarfsemi er enn í algeru lágmarki, en þó var þróunin örlítið upp á við í fyrra.“