Farice, sem rekur og býður fjarskiptasambönd til útlanda um sæstrængina Danice og Farice-1, vinnur að því að stækka burðargetu strengjanna. Sæstrengirnir voru lagðir árin 2003 og 2009.

„Með hinum nýja endabúnaði verða sæstrengir Farice sambærilegir að gæðum og afkastagetu við nýja strengi. Endabúnaðurinn sem kemur frá bandaríska fyrirtækinu CIENA margfaldar hámarksafkastagetu strengjanna. Sem dæmi þá mun búnaðurinn tífalda hámarksgetu eldri FARICE-1 strengsins sem fyrir var 720 Gb/s en verður um 8.000 Gb/s. Hámarksafkastageta DANICE strengsins sexfaldast og verður um 30.000 Gb/s (30 terabitar á sekúndur) sem er nóg til að flytja alla Internet umferð Vestur-Evrópu eða flytja samtímis 3 milljónir háskerpusjónvarpsstrauma svo að dæmi séu tekin,“ segir í tilkynningu frá Farice.

Samhliða þessum uppfærslum breytir Farice útfærslu kerfa sinna þannig að sæstrengskerfið eða bylgjuhluti (DWDM) þess er framlengt inná afhendingarstaði í Reykjavík annars vegar og við Keflavíkurflugvöll hins vegar. Með þessu er kerfið einfaldað í uppbyggingu allt með það markmiði að lækka kostnað og stytta umferðartíma. Enginn skortur á bandvídd er fyrirsjáanlegur næsta áratuginn og Ísland er enn betur í stakk búið en áður að þjónusta kröfuhörðustu gagnaveraviðskiptavini og jafnframt sívaxandi þörfum íslensks samfélags.“