„Engar viðræður hafa átt sér stað milli Byrs sparisjóðs og Glitnis um sameiningu bankanna,“ segir Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður Byrs, en á forsíðu Fréttablaðsins í gær segir að töluverður gangur sé kominn í samrunaviðræður Glitnis og Byrs.

„Þetta er eitthvað sem Fréttablaðið er að búa til, án þess að nefna nokkra heimildarmenn og án þess að hafa samband við forstjóra eða stjórnarformann Byrs. Þess konar fréttamennska er á afskaplega lágu plani, að mínu mati, og ótrúverðug. Kauphöllin tekur ekki létt á svona fréttum og því skaðar þetta fyrirtækið,“ segir Jón Þorsteinn.

„Við höfum margítrekað sagt að við séum ekki að setjast að samningaborðinu. Staða okkar er góð, við höfum eitt sterkasta CADhlutfall íslenskra banka og erum því valkostur hjá öllum hvað sameiningu varðar,“ segir Jón enn fremur.

Orðrómur um fyrirhugaðan samruna Byrs og Glitnis hefur verið þrálátur síðastliðna mánuði og kann ástæðan að vera eignatengsl bankanna. Fjárfestingarfélagið Saxhóll og önnur tengd félög eru til að mynda stórir eigendur bæði Glitnis og Byrs.

Eigendur Saxhóls eru gjarna kenndir við Nóatún og fer Jón Þorsteinn fyrir félaginu. Þá eiga aðilar tengdir Jóni Ásgeiri einnig umtalsverða hluti í báðum félögunum. Jóhanna Waagfjörð, framkvæmdastjóri Haga og stjórnarmaður, vildi ekki tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið hafði samband.

Þá segist Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, ekki þekkja til samrunaviðræðna við Byr. Ekki náðist í fleiri stjórnarmenn Byrs vegna málsins.