Stjórn Byrs sparisjóðs hefur ákveðið í ljósi breyttra rekstraraðstæðna að leita eftir framlagi úr ríkissjóði. Í lögum nr. 125/2008 vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði var ákvæði sem heimilar eiginfjárframlag til sparisjóða.

Lögin heimila ríkissjóði að leggja sparisjóðum til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé í árslok 2007, gegn stofnfjárbréfum í viðkomandi sparisjóði, sem endurgjald í samræmi við það eignfjárframlag sem lagt er til. Í tilkynningu með ársuppgjöri kemur fram að sjóðurn mun leita eftir framlagi.

Á síðasta ári var mjög há arðgreiðsla úr sjóðnum. Á aðalfundi Byrs þann 9. apríl sl. lagði stjórn Byrs fram tillögu um arðgreiðslu vegna rekstrarársins 2007 og var hún samþykkt samhljóða. Áður hafði hún hlotið samþykki Tryggingasjóðs sparisjóða, í samræmi við 68. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt hafði stjórn Byrs gert Fjármálaeftirlitinu grein fyrir tillögu sinni um greiðslu arðs án athugasemda af þess hálfu. Alls nam arður ársins 13.471 m.kr. og var hann greiddur stofnfjáraðilum í réttu hlutfalli við stofnfjáreign..

Afkoma sparisjóðsins var neikvæð um 28.881 m.kr. eftir skatta og er þar um verulegan viðsnúning að ræða frá fyrra ári, þegar hagnaður eftir skatta nam 7.929 m.kr. Virðisrýrnun útlána, krafna og óefnislegra eigna nam 29.202 m.kr.