Riftunarmál sem þrotabú Fons höfðaði gegn Pálma Haraldssyni og félögum í hans eigu í byrjun árs 2010 hafa enn ekki verið tekin til aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi. Farið er fram á að greiðslum upp á níu milljarða króna verði rift. Stærsti hluti kröfunnar er vegna 4,2 milljarða arðgreiðslu sem greidd var út úr Fons á árinu 2007.

Vörn Pálma í málinu hefur byggst á því að ársreikningar Fons á hverjum tíma fyrir sig hafi gefið rétta mynd af stöðu félagsins og því hafi t.d. ekkert athugavert verið við ofangreinda arðgreiðslu. Því er þrotabú Fons ósammála. Fyrr á þessu ári var löggiltur endurskoðandi skipaður til að meta rétta stöðu Fons. Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, segir að sú vinna sé þegar hafin og að vonir standi til þess að niðurstöður verði fyrirliggjandi fyrir áramót. Í kjölfarið verður hægt að hefja aðalmeðferð í málunum.