Tim Cook, forstjóri Apple, segir að samningar sem fyrirtækið hefur gert við China Mobile um sölu á iPhone símum í Kína muni auka gríðarlega sölu á símunum. Cook og Xi Guohua, stjórnarformaður China Mobile, kynntu samkomulagið í morgun. Búist er við því að sala á símunum hefjist á föstudaginn.

Cook sagði í samtali við Wall Street Journal að hann væri mjög bjartsýnn á samstarfið við China Mobile. Samstarfið mun ekki einskorðast við dreifingu á farsímunum heldur verður samstarfið á fleiri sviðum. „Við erum farnir að kynnast hverjir öðrum.... upphafið er í dag, en ég held að það sé margt fleira sem fyrirtækin okkar geta gert í framtíðinni,“ sagði Cook.