Skuldabréfasjóðurinn Carlyle Capital, hlutdeildarfélag Carlyle Group tilkynnir á heimasíðu sinni í dag að sjóðurinn muni hætta starfsemi. Stjórn félagsins kom saman á fundi í gær þar sem þetta var ákveðið en tillagan var samþykkt samhljóða meðal helstu hluthafa.

Þessar fréttir koma ekki á óvart en í síðustu viku var greint frá því að sjóðnum hefði ekki tekist að semja við lánadrottna um skuldir sínar. Sjóðurinn hafði þá fengið á sig yfir 400 milljónir Bandaríkjadala í veðköll síðustu sjö viðskiptadaga þar á undan.

Ekkert verður eftir til hluthafa sjóðsins og segir Reuters fréttastofan að hann verði lýstur gjaldþrota en samkvæmt tilkynningu verður gengið frá félaginu í samstarfi við dómsstóla.