Cathay Pacific, stærsta flugfélagið í Hong Kong, hefur tilkynnt um 39 milljarða Hong Kong dala ríkisaðstoð en það jafngildir um 665,6 milljarða íslenskra króna. Ríkissjóður Hong Kong mun eignast um 6% hlut í flugfélaginu og stjórnvöld fá tvö fulltrúa í stjórn félagsins. BBC greinir frá.

Cathay, líkt og flest önnur flugfélög í heiminum, er í miklum rekstrarerfiðleikum vegna heimsfaraldursins. Félagið hefur þurft að draga verulega úr flugferðum sínum og flýgur aðeins örfá farþegaflug ásamt fraktflugum til áfangastaða líkt og Beijing, Los Angeles, Singapúr, Sydney, Tokyo og Vancouver.

„Cathay Pacific hefur kannað alla mögulega valkosti og telur að endurfjármögnun sé nauðsynleg til þess að tryggja nægt lausafé svo félagið geti lifað núverandi ástand af,“ segir í tilkynningu flugfélagsins til Hong Kong Kauphallarinnar.

Félagið sagði einnig að allur hluti viðskiptastefnu þess væri til endurskoðunar. Cathay hefur sent hluta flugmanna í launalaust leyfi og sagt upp starfsfólki í þjónustuáhöfnum í Bandaríkjunum og Kanada. Félagið hefur þó ekki tilkynnt um varanlegar fjöldauppsagnir.

Lokað hefur verið fyrir viðskipti með hlutabréf Cathay, Swire Pacific og Air China í Hong Kong Kauphöllinni. Hlutabréfi Cathay Pacific hafa fallið um 23,5% á árinu.