Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Coca Cola European Partners á Íslandi (CCEP) á vörumerkinu Einstök á Íslandi af bandaríska fyrirtækinu Einstök Beer Company L.P.

Bjórinn hefur frá upphafi verið framleiddur af CCEP fyrir bandaríska félagið. Bandaríska félagið seldi svo bjórinn fyrir eigin reikning, aðallega í heimalandinu. CCEP hafði þó samhliða því dreifingarsamning um Einstök bjór fyrir íslenskan markað. Með kaupunum mun CCEP því breytast úr því að vera dreifingaraðili bjórsins yfir í að vera eigandi vörumerkisins á Íslandi. Einstök mun því til frambúðar hafa yfirráð yfir þeirri veltu sem sala á Einstök bjór á Íslandi skapar.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að ekki verði séð af gögnum málsins að samruninn leiði til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Á grundvelli þess telji eftirlitið ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.