Tölvuleikjaframleiðandinn CCP auglýsir þessa dagana eftir starfsfólki í 24 stöður. Stöðurnar eru víða um heim eða í starfsstöðvum CCP í Reykjavík, Shanghai, Atlanta í Bandaríkjunum og Newcastle í Bretlandi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru þetta óvenjumargar stöður en verið er að bæta við stöðugildum meðal annars vegna EVE Valkyrie sem hefur hlotið lofsamlega dóma.

Stöðurnar eru allt frá því að vera almenn forritunarstörf, í að vera mjög sérhæfðar hönnunar/ listastöður og allt þar á milli. Samkvæmt upplýsingum frá CCP er fyrst og fremst lögð áhersla á að ráða hæfasta fólkið, hvaðan sem er úr heiminum en um það bil 30-35% af starfsmönnum á Íslandi eru af erlendu bergi brotnir en þeir þykja koma inn með sérhæfingu sem oft á tíðum er erfitt er að finna á Íslandi.