Bandaríska álfélagið Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, tapaði 2,3 milljónum dollara (eða um 185 milljónum íslenskra króna) á öðrum ársfjórðungi.

Á sama tímabili fyrir ári síðan nam tap félagsins 60,7 milljónum dollara (sem þá samsvöruðu 3,6 milljörðum króna). Tap á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var hins vegar mun meira, eða 233 milljónir dollara (rúmir 18 milljarðar króna).

Tap á rekstri félagsins hefur því dregist töluvert saman, ef miðað er við fyrsta fjórðung þessa árs og sama tímabil í fyrra.

Sala félagsins sló met á tímabilinu, en hún jókst um 16% á milli fyrsta og annars fjórðungs þessa árs.

Á fjórðungnum þurfti félagið að gjaldfæra 204 milljónir dollara (um 16 milljarða) vegna framvirkra samninga. Algengt er að félög í þeim iðnaði sem Century Aluminum tilheyrir noti afleiðusamninga til þess að tryggja sér fyrirfram ákveðið verð á afurð sinni. Hvernig verð á afurðinni, hér áli,  þróast svo í raun getur haft mikil áhrif á afkomu félaganna eins og vitna má um hér.

Þess má geta að tap á hvern hlut nam 0,06 dollurum á nýyfirstöðnum fjórðungi.

Logan W. Kruger, forstjóri félagsins, sagði m.a. á uppgjörsfundinum að félagið hafi sýnt mikla framför á fjórðungnum. Tap hafi dregist saman, og sala aukist. Einnig nefndi forstjórinn að framkvæmdir á álverinu í Helguvík væru í fullum gangi og að hann hefði mikla trú á að þrátt fyrir að markaðurinn með ál sé sveiflukenndur, þá muni eftirspurn aukast eftir afurðinni, bæði vegna skorts á framboði, og eins vegna aukinnar eftirspurnar nýmarkaðsríkja eftir áli.