Citigroup, næststærsti og lengi vel stærsti banki Bandaríkjanna, hefur tilkynnt að um 52.000 manns verði sagt fyrir lok næsta árs. Þetta er gert til að rétta af rekstur bankans sem hefur tapað gríðarlegum fjárhæðum í því moldviðri markaða sem nú stendur yfir. Reuters segir frá þessu.

Um er að ræða 15% alls vinnuafls Citigroup. Vikram Pandit, forstjóri Citigroup tilkynnti að uppsagnirnar kæmu til viðbótar við 23.000 uppsagnir sem áttu sér stað á tímabilinu janúar-september á þessu ári.

Stjórnendur Citigroup ætla sér að minnka kostnað bankans um 20%, og rekstrarkostnaður bankans er áætlaður 50 milljarðar dollara á næsta ári. Á síðustu fjórum fjórðungum nam kostnaður bankans tæplega 62 milljörðum dollara.

Niðurskurðurinn verður á ýmsum sviðum bankans, allt frá fjárfestingabankasviði að viðskiptabankasviði. Um helmingur ágóða niðurskurðarins verður vegna uppsagna og annars slíks, en einnig er sala eigna fyrirhuguð, meðal annars viðskiptabankastarfsemin í Þýskalandi.

Tap Citigroup síðastliðið ár nemur 20.3 milljörðum dollara. Sérfræðingar búast allt eins við því að bankinn fari ekki að skila hagnaði fyrr en á árinu 2010.