The Color Run verður haldið í fyrsta skipti á Íslandi næsta sumar, nánar tiltekið laugardaginn 6. júní 2015. Hlaupið er 5 km langt þar sem litagleði og tónlist ræður ríkjum. Lyfjafyrirtækið Alvogen er bakhjarl hlaupsins og meðal annarra samstarfsaðila má nefna Nýherja og Bai5. The Color Run er tileinkað réttindum barna og stefnt er að því að 5 milljónir króna renni til góðgerðarmála vegna viðburðarins.

Fjöldi hlaupara verður takmarkaður við 6.000 en sá fjöldi hefur nú þegar staðfest komu sína á samfélagssíðu hlaupsins sem fór í loftið nú í nóvember. The Color Run hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og yfir 200 hlaup hafa verið haldin í meira en 40 löndum. Hlaupið er hluti af norrænni herferð en árið 2014 hefur The Color Run verið haldið í Danmörku og Svíþjóð en Noregur og Finnland eru einnig fyrirhuguð árið 2015. Nákvæm hlaupaleið verður tilkynnt á næstu vikum en unnið er að því að finna hentuga leið í miðborg Reykjavíkur.

„Grunngildi hlaupsins eru heilsa, hamingja og tjáningafrelsi einstaklingsins. Þetta verður fyrst og fremst skemmtilegt hlaup og keppendur verða vægast sagt skrautlegir við endamarkið eftir að hafa verið útataðir litum. Framlag og stuðningur Alvogen og annarra samstarfsaðila gerir okkur kleift að styðja með myndarlegum hætti við góðgerðarmál sem tengjast réttindum barna. Það eru allir velkomnir í The Color Run og tímataka verður aukaatriði“ segir Gestur Steinþórsson, einn af forsvarsmönnum hlaupsins.

Hann segir viðburðinn hafa fengið frábærar viðtökur og ánægjulegt sé að geta boðið Íslendingum að taka þátt í þessu heimsþekkta hlaupi. Miðasala er hafin á miði.is.