*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 25. ágúst 2021 10:59

Coripharma horfir til First North

Samheitalyfjafyrirtækið hefur til skoðunar skráningu á hlutabréfamarkað og samhliða henni 3-5 milljarða króna hlutafjáraukningu.

Ritstjórn
Bjarni K. Þorvarðarson, stjórnarformaður Coripharma
Aðsend mynd

Íslenska lyfjafyrirtækið Coripharma hefur til skoðunar að fara á First North-markaðinn í Kauphöllinni á komandi mánuðum. Einnig kemur skráning á erlendan hlutabréfamarkað til greina. Þetta staðfestir Bjarni Þorvarðarson, stjórnarformaður og einn af stærri hluthöfum fyrirtækisins, við Markaðinn.

Verði af skráningunni, þá hefur Coripharma í hug að sækja sér allt að 3-5 milljarða króna í nýtt hlutafé. Þá yrðu viðskipta- og fjárfestingaáætlanir lyfjafyrirtækisins fullfjármagnaðar að hans sögn.

Coripharma hóf í byrjun júlí sölu á flogaveikilyfinu Eslicarbazepine sem er fyrsta samheitalyfið sem félagið þróar.

„Ástæðan fyrir því að skráning er nú til skoðunar hjá félaginu, ásamt öðrum kostum eins og hlutafjáraukningu í gegnum lokað útboð, er að við höfum fundið fyrir miklum áhuga fjárfesta, sem almennt fjárfesta einungis í skráðum fyrirtækjum, á að koma að Coripharma. Þetta á einkum við núna eftir að fyrsta lyfið sem Coripharma þróaði er komið á markað í Evrópu,“ hefur Markaðurinn eftir Bjarna.

Samheitalyfjafyrirtækið sótti sér 2,5 milljarða króna í hlutafjáraukningu í marsmánuði. Framtakssjóðurinn Iðunn, í stýringu hjá Kvika eignastýringu, kom þá inn í hluthafahópinn með 19% hlut og varð jafnframt stærsti hluthafi fyrirtækisins. Meðal annarra stærstu hluthafa Coripharma eru BKP Invest, sem er í meirihlutaeigu framangreinds Bjarna, framtakssjóðurinn TFII, VÍS og Snæból.