*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 31. ágúst 2020 19:22

Costco í plús í fyrsta sinn

Sala Costco á mánuði er um 37% minni en hún var í Costco-æðinu. Eldsneytissala hefur dregist saman til muna í faraldrinum.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Costco hagnaðist um 472 milljónir á síðasta rekstarári sem lauk í ágúst 2019 miðað við 139 milljóna hagnað á fyrra rekstarári. Costco velti 19,8 milljörðum króna miðað við 21,2 milljarða króna á fyrra reikningsári, sem var fyrsta heila reikingsár félagsins hér á landi. Félagið skilaði rekstararhagnaði í fyrsta sinn, upp á 208 milljónir króna miðað við 47 milljóna króna rekstartap á fyrra rekstrarári.

Í ársreikningnum segir að bætta afkomu megi skýra með aukinni framleiðni og skilvirkni í rekstri.

Sjá einnig: „Brjálæði" í Costco venga kórónuveirufaraldursins

Í ársreikningnum segir að sala Costco á mat og ýmsum varningi hafi aukist til muna í upphafi COVID-19 faraldursins. Salan hafi jafnast út á ný á að undanförnu. Hins vegar hafi orðið verulegur samdráttur í eldsneytissölu. Efnahagssamdrátturinn vegna COVID-19 kunni því að hafa áhrif á afkomu Costco hér á landi á reikningsárinu sem lýkur í dag.

Veltan minnkað um 37% frá Costco-æðinu

Á fyrsta rekstarári Costco, sem lauk í lok ágúst 2017, hafði félagið verið í rekstri í ríflega þrjá mánuði en verslunin opnaði 23. maí 2017. Því nær fyrsti ársreikningurinn yfir það skeið sem Costco-æðið stóð sem hæst. Á því tímabili velti Costco tæplega 8,7 milljörðum króna sem samsvarar mánaðarlegri veltu upp á um 2,6 milljarða króna. Á reikningsárinu, sem lauk í ágúst 2018 nam veltan á mánaðargrundvelli um 1,77 milljörðum króna en í fyrra um 1,65 milljörðum króna. Samdráttur í veltu Costco hér á landi nam því 6,6% milli áranna 2018 og 2019. Veltan á síðasta rekstarári miðað við fyrstu þrjá mánuðina 2017 er hins vegar 37% minni á mánaðargrundvelli.

Aukin framlegð og lægri launakostnaður

Framlegð félagsins sem hlutfall af vörusölu jókst úr um 13,6% í ríflega 14% milli ára. Þá lækkaði rekstrarkostnaður félagsins hér á landi um 11% og nam tæplega 2,6 milljörðum króna miðað við ríflega 2,9 milljarða króna á fyrra reikningsári.

Miklu munar um að launakostnaður lækkar um 14% milli ára, úr tæplega 2 milljörðum króna í ríflega 1,7 milljarða króna. Ekki er tilgreint í ársreikningnum, hve mörg ársverk voru hjá félaginu en þar segir að starfsfólki í fulli starfi hafi fækkað úr 193 í 187 og þeim sem voru í hlutastarfi úr 86 í 60.

Þá munar einnig um að gengishagnaður jókst úr 185 milljónir í 307 milljónir króna, sem olli því að fjármagnsliðir voru jákvæðir um 382 milljónir króna miðað við 226 milljónir króna á fyrra ári. 

Eignir upp á 10 milljarða

Eignir félagsins í árslok námu 10 milljörðum króna en þar af var fasteign félagsins í Kauptúni metin á 5,4 milljarða króna. Eigið fé var 8 milljarðar og skuldir 2 milljarðar króna en þar af voru skuldir við tengda aðila 691 milljón króna. Alls keypti Costco á Íslandi vörur frá móðurfélaginu og tengdum aðilum fyrir 6,9 milljarða króna á reikningsárinu. 

Stikkorð: Costco