Andy Coulson, talsmaður David Cameron og fyrrverandi ritstjóri News of the World, hefur verið dæmdur í fangelsi í símahlerunarmáli. Rebekah Brooks, fyrrum blaðamaður Sun og News of the World, var hins vegar sýknuð. Sagt er frá þessu á vef The Telegraph .

Réttarhöldin eru ein þau lengstu og dýrustu í sögu Bretlands en tekið hefur þrjú ár að ná niðurstöðu í málinu. Tildrög málsins eru þau að blaðamenn undir forystu Coulson og Brooks voru sakaðir um að hlera símtöl mörg hundruð einstaklinga með það að markmiði að vera fyrst með fréttirnar. Einnig snerist ákæran um mútugreiðslur til lögreglumanna og embættismanna og að leyna sönnunargögnum.

Brooks hafði alltaf neitað staðfastlega sök í málinu og eftir sjö mánaða réttarhöld féllst dómurinn loks á framburð hennar. Eiginmaður hennar var einnig sýknaður. Coulson var hins vegar dæmdur og ekki er loku fyrir það skotið að hann verði ákærður fyrir fleiri atriði í tengslum við málið.