"Danska árásin" á íslenskt efnahagslíf getur valdið meiri skaða en virtist þegar hún hófst. Hin mikla gengislækkun krónunnar virðist ekkert ganga til baka þrátt fyrir 0,75% hækkun á stýrivöxtum Seðlabankans segir Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins í leiðara sínum í nýjasta fréttabréfi samtakanna.

Vilhjálmur bendir á að gengisvísitalan hefur enn verið um og yfir 120 en með vaxtahækkuninni hefði mátt gera ráð fyrir því að hún lækkaði sem þar með hækkaði gengi krónunnar. Gengi krónunnar hefur verið helsta miðlunartæki peningastefnunnar, fyrst og fremst vegna þess hve lág hlutdeild íslensku krónunnar er á íslenska lánamarkaðnum. Þótt gengi krónunnar hafi verið orðið of hátt með tilliti til afkomu útflutningsatvinnuvega og jafnvægis í utanríkisviðskiptum þá er snörp lækkun gengisins, eins og átt hefur sér stað undanfarið, óæskileg með hliðsjón af áhrifunum á verðbólgu, segir Vilhjámur og bætir við:

"Verðbólgumælingar að undanförnu sýna enn að verðbólgan er óásættanlega mikil og Seðlabankinn á engan annan kost en að bregðast við. Mánuðum saman hefur ársverðbólgan verið vel yfir 4% og aðalhættan er sú að væntingar um framtíðarverðbólgu séu smám saman að festast í þessu fari. Gengi krónunnar hefur lækkað það ört og það mikið að þegar lækkunin gengur ekki til baka finna fyrirtæki sig knúin til þess að bregðast hraðar við með hækkuðu vöruverði en annars hefði orðið og markaðurinn tekur síðan við verðhækkunum vegna mikils eftirspurnarþrýstings."

Hætta af verðbólguvæntingum

Vilhjálmur bendir á að væntingar um meiri verðbólgu eru hættulegar efnahagslífinu vegna þess að þær sjálfar eru til þess fallnar að stuðla að verðhækkunum og aukinni verðbólgu. Það getur orðið mjög erfitt að brjóta upp slíkar væntingar við núverandi efnahagsástand þar sem innstreymi fjármagns vegna stórframkvæmda er áfram mikið og Seðlabankinn spáir hverju framkvæmdametinu á fætur öðru í íbúðabyggingum. Almenningur hefur verið að byggja sem svarar til eins álvers ásamt stórvirkjun sé einungis litið til aukningar íbúðabygginga á þessum áratug umfram þann síðasta. Með hliðsjón af kostnaðarsamsetningu og vægi innlendra og erlendra starfsmanna áætla SA að þensluáhrif aukningarinnar samsvari byggingu a.m.k. tveggja álvera og tilheyrandi virkjana.