Niels Christian Beier, skrifstofustjóri danska seðlabankans, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í dag að rétt hafi verið haft eftir sér í frétt Børsen í gær um að ekki séu í gangi lánalínur á milli norrænu seðlabankana og að ekki standi til að danski seðlabankinn veiti þeim íslenska aðgang að lánalínum.

Þær hafi verið fyrir hendi milli norrænu seðlabanka en upphæðirnar hafi verið of litlar og þetta hafi því ekki verið nýtt.

Beier segir að samkomulagið frá 2003 sé að vísu enn í fullu gildi en gerir þó ekki mikið úr samkomulaginu.

„Það gildir en þetta er bara “memorandum of understanding” og það er einfaldlega leiðarvísir um það hvernig bankarnir geti unnið saman ef á þyrfti að halda. Um það hef ég ekki meira að segja og ekkert umfram það sem ég sagði við Børsen,” segir Beier.