Bandaríska fyrirtækið SBC Communications tilkynnti í gær að það hyggðist selja stóran hlut í TDC. TDC er gamli danski Landssíminn og enn með stærstu markaðshlutdeildina. Danska ríkið seldi 49% hlut í fyrirtækinu árið 1994 og restina 1998.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að SBC er stærsti hluthafinn í TDC og á sem nemur 41,6% af heildarhlutafé félagsins. Það hefur lengi verið orðrómur um að SBC hafi viljað selja hlut sinn í TDC, en í tilkynningunni í gær kom fram að bandaríska fyrirtækið hyggist að minnsta kosti selja 32,1% hlut. Talið er að félagið vilji einbeita sér að bandaríska markaðnum þar sem harðnandi samkeppni hefur leitt til minni markaðhlutdeildar og mikils samdráttar í hagnaði á milli ára segir í Vegvísinum.

Þar segir ennfremur fram að önnur símafyrirtæki virðast ekki líta á TDC sem spennandi fjárfestingarkost því ekkert símafyrirtæki hafði lýst áhuga sínum á að kaupa þennan stóra hlut í TDC þegar tilkynningin kom i gær. Þar af leiðandi ætti eignarhald á TDC að verða dreifðara eftir söluna, en TDC hefur sjálft lýst yfir áhuga á að kaupa 8,4% af þessum hluta sem myndi þýða að eftir kaupin ætti fyrirtækið 10% af eigin bréfum.

"Markaðurinn brást illa við þessum fréttum enda gefa þær til kynna að framboð á bréfum félagsins eigi eftir að stóraukast. Strax við opnun markaða í Danmörku lækkuðu bréfin í verði um tæp 8%. Mikil viðskipti voru með bréf TDC í dag og við lokun markaða höfðu bréf félagsins lækkað um 8,5%," segir í Vegvísi.