Niðursveiflan á fasteignamarkaðnum hefur, líkt og í svo mörgum öðrum hagkerfum, leitt til þrenginga í Danmörku.

Danska ríkið varð á dögunum það fyrsta í Evrópu til að renna formlega inn í samdráttarskeið – það er að segja landsframleiðsla dróst saman tvo fjórðunga í röð.

Segja má að vandamál danskra banka sé einkennandi fyrir þau vandamál sem skapast þegar fasteignabólur springa: Þeir eru aðþrengdir vegna útlánataps og afskrifta á lánum sem tengjast fasteignamarkaðnum.

Nú þegar hafa tveir litlir bankar rambað á barm gjaldþrots en fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar að ástandið kunni að fara bitna verulega á stærri bönkum á svæðinu.

Danske Bank, sem er næststærsti banki Norðurlanda þegar litið er til markaðsvirðis, tapaði 1,11 milljörðum danskra króna á útlánum á fyrri helmingi þessa árs en tapið nam aðeins 5 milljónum króna á sama tíma í fyrra. Nordea Bank, sem er stærsti banki Norðurlanda, fær 29% sinna tekna frá starfseminni í Danmörku.

Útlánatap hans nam 57 milljónum evra á fyrri helmingi ársins en hagnaður var af útlánum á sama tímabili í fyrra og nam hann 41 milljón evra.

Það eru því teikn á lofti um að ástandið muni ekki eingöngu bitna á smærri bönkum sem hafa hærra hlutfall af ýmiss konar fasteignatengdum lánum á sínum bókum.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .