Margir af bönkum landsins taka mikla áhættu með eigið fé sitt, segir dagblaðið Børsen í dag um danska banka. Um 30 bankar hafa skuldsett sig miklu meira en þeir gerðu að meðaltali fram til ársins 2003 þegar útlánagleðin fór af stað fyrir alvöru, segir Børsen.

Á fyrri hluta ársins hafa bankarnir samanlagt lánað eigið fé sitt 10 sinnum en seðlabanki Danmerkur benti nýleg á að þetta hlutfall hafi hingað til verið 7.

Seðlabankinn segir bankana þurfa að minnka útlán verulega nema þeir fái nýtt eigið fé, eins og áform eru um af hálfu ríkisins. Børsen hefur eftir prófessor í fjármálum við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, CBS, að ríkið ætli aðeins að styðja við heilbrigða og vel rekna banka. Spurningin sé hins vegar hvort þeir geti talist heilbrigðir og vel reknir ef skuldsetningin er mjög mikil.