Verið er að safna saman tryggingasamningum, sem forverar breska tryggingafyrirtækisins RSA Insurance Group gerðu við sögufræga einstaklinga, og verða samningarnir hugsanlega til sýnis í nýjum höfuðstöðvum fyrirtækisins.

Meðal þeirra samninga sem um ræðir eru tryggingasamningar við Charles Darwin, Sir Christopher Wren, kaftein James Cook og Charles Dickens. Þeir hafa legið í geymslu í byggingu RSA en fundust að nýju þegar verið var að hreynsa út eigur fyrirtækisins sem er að flytja úr byggingunni.

Rætur RSA liggja m.a. í tryggingafyrirtækinu The Sun Fire Office, sem stofnað var árið 1710 og eru mikilvæg heimild um eignaverð á þessum tíma sem og hvað það var sem fólk taldi mikilvægt að tryggja.

Darwin tók t.d. út tryggingu að verðmæti 2.100 pund, sem hann borgaði fyrir eitt pund og 13 skildinga á ári. Verðmæti tryggingarinnar eru á núvirði um 220.000 pund, eða um 45 milljónir króna. Innifalið í henni var 60 punda trygging á hljóðfærum, 240 punda trygging á kofa fyrir garðyrkjumanninn, þvottahús, hesthús, vagnhús og skrifstofu. Þá var 400 punda innbústrygging.

Dickens greiddi hins vegar tvö pund á ári fyrir 2.000 punda tryggingu, sem innifal m.a. 50 punda hljóðfæratryggingu, 100 punda tryggingu fyrir mál- og prentverk og 200 punda postulíns- og glertryggingu.