Eftirminnilegasta ferðin mín var þegar ég fór með vinkonum mínum í skíðaferð til Ítalíu, nánar tiltekið til Madonna fyrir tíu arum síðan í vikuferð,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR. „Í fyrsta lagi þá hafði ég ekki oft stigið á skíði og þurfti að leigja mér skíði við komuna. Ég taldi að þetta væri nú ekki mikið mál, en átti eftir að komast að öðru.“

„Við gistum saman í frábæru herbergi allar þrjár. Við vorum reyndar búnar að hafa orð á því þar sem þetta væri bara vinkvennaferð að við myndum nýta hana vel, og vaka frameftir. Við höfðum heyrt af því að fólk í svona ferðum færi snemma að sofa á kvöldin, við áttum eftir að komast að öðru. Dauðþreyttar vorum við farnar að sofa um klukkan tíu á kvöldin eins og allt barnafólkið eftir frábæra útiveru allan daginn.“

„Á fyrsta degi var haldið upp á fjallstindinn með kláfi. Þar gerðu allir sig klára að renna sér niður brekkuna. Það var búið að koma tjaldi fyrir efst á fjallinu þar sem allir fóru í röð. Ég sá því ekkert út í hvað ég var að fara fyrr en það kom að mér. Vægt til orða tekið þá gekk fyrsta ferðin niður ekki vel. Ég lagði af stað og datt eftir sirka fjórar sekúndur en mér til happs þá stöðvaðist ég fljótlega og slapp við meiðsli. Ferðin niður varð því frekar sérstök þar sem ég þurfti að renna mér þvert á brekkuna og passa að verða ekki fyrir neinum frábærum skíðamanni. Þegar ég komst ekki lengra þurfti ég að snúa skíðunum við og renna mér þvert í hina áttina. Svona gekk þetta þar til ég komst loks niður. Daginn eftir fór ég í einkakennslu hjá frábærum Ítala. Þessi kennsla reyndist mér afar vel og skilaði sér alla ferðina.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .