Þegar ný ríkisstjórn, sem var undanfari þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, tók við völdum í byrjun febrúar 2009 var það eitt af hennar forgangsverkefnum að koma seðlabankastjórunum út úr bankanum. Ásamt Davíð Oddssyni voru þeir Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson látnir taka poka sinn eftir að lögum um Seðlabanka Íslands hafði verið breytt rúmum mánuði síðar.

Davíð Oddsson, fyrrv. forsætisráðherra og seðlabankastjóri, er í ítarlegu viðtali í áramótatímariti Viðskiptablaðsins. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu tímaritsins en er birtur hér í heild sinni.

Aðspurður um ofangreint atriði segir Davíð að þarna hafi ríkisstjórnin farið offari í krafti þingmeirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið nánast lamaður og Framsóknarflokkurinn hafi skipst eftir hentistefnu þess tíma og reynt að þóknast öllum.

„Mér leið ágætlega og var í mjög góðu skapi fram undir það síðasta, þrátt fyrir miklar barsmíðar,“ segir Davíð aðspurður um líðan sína þennan mánuð.

„Það er enginn vafi á því að þær barsmíðar voru skipulagðar af Vinstri grænum og öðrum ónefndum aðilum. Við sáum hvert hópurinn fór aldrei sem segir alla söguna. RÚV varð sér einnig til stórminnkunar vegna þess hvernig það lét misnota sig á þessum tíma.“

Þá segir Davíð að á þessum tíma hafi veri búið að ákveða að rannsaka bankahrunið. Sú rannsókn hafi ekki verið hafin en samt hafi vinstri flokkarnir dregið þá ályktun að bankahrunið mætti skrifa að mestu leyti á Seðlabankann.

„En það vita allir heiðarlegir menn að þarna voru óprúttnir stjórnmálamenn að svala hefndarþorsta gagnvart gömlum pólitískum andstæðing sem þeir höfðu aldrei haft roð við meðan allir störfuðu á sama vettvangi,“ segir Davíð.

„Frá því að þetta gerðist hefur heldur betur komið í ljós hvers konar fólk það er sem nú er í forystu landsins.

Sp. blaðamanns: Þú hefur unnið hvern sigurinn á fætur öðrum á þínum pólitíska ferli en þarna verður þú undir, hvernig tilfinning er það?

„Ég varð ekki undir því ég var ekki í slagnum,“ svarar Davíð að bragði.

„Ég tel að siðferðislega hafi ég orðið ofan á en þetta fólk siðferðislega undir. Nú sjá allir hvers konar fólk þetta er, hvenær það segir satt og hvenær það lýgur og þar hallar mjög á sannleikann, svo mjög að hann er sjaldan sjáanlegur.“

Sérðu eftir því að hafa farið í Seðlabankann?

„Nei, ég sé ekki eftir því. Mér fannst það mjög skemmtilegt fram að síðustu stundu og hef í raun alltaf gaman að því hvar sem ég er að vinna,“ segir Davíð.

„Ég er mjög stoltur af þeirri vinnu sem við unnum til að reyna að bjarga kerfinu. Sem dæmi má nefna að það var Seðlabankinn sem sá um það að allt greiðslukerfið í landinu virkaði. Síðan var farið fram með miklu pólitísku ofstæki og Seðlabankinn sviptur sjálfstæði með lögum af því að menn hötuðust við mig. Ég held að það muni reynast í sögunni mikill áfellisdómur yfir þeim sem það gerðu.“