Davíð Helgason, einn stofnenda Unity, seldi í síðustu viku hlutabréf í hugbúnaðarfyrirtækinu fyrir 8,4 milljónir dala eða sem nemur tæplega 1,1 milljarði króna. Um er að ræða fyrstu sölu Davíðs í Unity í ár en alls seldi hann 11% af eignarhlut sínum í félaginu fyrir nærri 19 milljarða króna í nokkrum lotum í fyrra. Alls hefur Davíð nú selt hlutabréf í Unity fyrir um 20 milljarða króna samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

Davíð, sem situr í stjórn Unity, á enn 3,1% af hlutafé félagsins og nemur markaðsvirði eignarhlutar hans nú 97 milljörðum króna.

Gengi Unity lækkað um 40% í ár

Hlutabréfaverð Unity hefur sveiflast mikið frá því að hugbúnaðarfyrirtækið fór á markað í september 2020 en útboðsgengi í hlutafjárútboði fyrir skráninguna var 52 dalir. Síðasta haust tók Unity að hækka verulega og fór upp fyrir 200 dali í nóvember. Viðskiptablaðið sagði frá því í nóvember að auðæfi Davíðs hafi því farið yfir 2 milljarða dala samkvæmt rauntímalista Forbes.

Hlutabréf tæknifyrirtækja hafa þó farið lækkandi í verði að undanförnu, m.a. vegna væntinga um hærra vaxtastig við vaxandi verðbólgu. Gengi Unity stóð í 78,9 dölum við lokun markaða á föstudaginn og hefur nú lækkað um 43% í ár og um meira en 60% frá því að gengið náði sínum hæstu hæðum í nóvember síðastliðnum. Auðæfi Davíðs eru nú metin á 1,1 milljarð dala samkvæmt Forbes.

Meðalsölugengið í viðskiptunum í síðustu viku var rétt yfir 100 dali en þegar Davíð seldi í nóvember síðastliðnum fékk hann allt að 185 dali fyrir hvern hlut.

Í lok síðasta mánaðar hét Davíð því að jafna framlög til Úkraínu vegna stríðsástandsins fyrir allt að 500 þúsund dali, eða sem nemur 66 milljónum króna. Þar sem mótframlög fóru yfir markmiðið endaði Davíð á að gefa 716 þúsund dali inn á sérstakan fjáröflunarreikning sem úkraínski seðlabankinn opnaði til stuðnings hersins þar í landi.