*

mánudagur, 20. september 2021
Innlent 20. maí 2018 17:57

Davíð sér mest eftir bönkunum

Fyrrum forsætisráðherra segist mest sjá eftir að hafa ekki fylgt eftir sannfæringu sinni um að eignarhald bankanna yrði dreift.

Ritstjórn
Davíð Oddsson var lengi bæði einn vinsælasti og óvinsælasti stjórnmálamaður landsins, á sama tíma.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Davíð Oddson, forsætisráðherra til margra ára, sem og utanríkisráðherra og Seðlabankastjóri um tíma, fór yfir sögu bankahrunsins á útvarpsstöðinni K100 í morgun. Ræddi Davíð þar við Pál Magnússon fyrrum Útvarpsstjóra og núverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins við ritstjóra Morgunblaðsins núverandi, en K100 er í eigu Árvakurs, útgáfufélags blaðsins.

Í þættinum segist Davíð helst sjá eftir því úr forsætisráðherra tíð sinni að hafa ekki sótt það fastar þegar bankarnir voru einkavæddir að eignarhald þeirra yrði dreift eins og hann sagði bæði á sínum tíma og oft síðar að hann vildi.

Sagðist hann hafa mætt mótstöðu við þessum hugmyndum sínum bæði úr röðum allra annarra stjórnmálaflokka en einnig innan raða Sjálfstæðisflokksins þar sem Davíð var formaður, en Páll Magnússon er þingmaður flokksins í dag.

„Ég tel að þetta hafi sannast í áfallinu sem maður kennir við bankana að ógæfa þeirra varð þegar eignaraðilarnir sem voru svo stórir tóku að láta bankana snúast mest um sjálfan sig,“ segir Davíð. „Þá tel ég eftir á að hyggja að ég hefði átt að fylgja þessu enn fastar fram þó ég fyndi fyrir svona mikilli andstöðu.“

Vissi af stöðunni í febrúar 2008

Páll spurði hvers vegna ekkert hefði verið gert fyrr, og vísaði í því samhengi við samtal við Davíð í febrúar 2008 um að bankarnir myndu falla um haustið. Svaraði Davíð því við að hann hefði upplýst um stöðu mála á fundi með ríkisstjórninni á grundvelli þess sem erlendir seðlabankar væru að segja á þeim tíma.

Unnið hefði verið að málinu allt frá því í febrúar það ár, og telur Davíð að viðbrögð Gordon Browns þáverandi forsætisráðherra Bretlands og Seðlabanka Bandaríkjanna hefðu verið önnur og betri ef þeir hefðu vitað það.

Ríkisstjórn Bretlands nýtti á þessum tíma hryðjuverkalög gegn Íslandi og stöðvaði greiðsluflæði á milli dótturfélaga íslenskra banka í Bretlandi til Íslands og annarra útibúa bankanna. Davíð telur að staða Sjálfstæðisflokksins væri sterkari ef hann hefði ekki lagst á sveif með meirihlutanum í bæði ríkinu í Icesave málinu og í borginni.

Stikkorð: Icesave bankahrun Davíð Oddsson