Jack Lew, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, varar við því að ríkissjóður Bandaríkjanna muni fara í greiðsluþrot í lok mánaðarins ef fulltrúadeild Bandaríkjanna samþykki ekki hækkun skuldaþaks. Lew segir að hann geti einungis gripið til neyðarráðstafa þegar skuldaþakið nær hámarki 7. febrúar næstkomandi.

Skuldaþakið var hækkað í október eftir að starfsemi bandaríska ríkisins var lokað að hluta. Á þeim tíma var mikill ágreiningur um ríkisfjármál á milli Repúblikana og demókrata. Repúblikanar settu þau skilyrði að verulega yrði skorið niður í ríkisútgjöldum ef þeir ættu að samþykkja hækkun skuldaþaks.